Eva Rún til liðs við RATA

Eva Rún Þorgeirsdóttir

Eva Rún Þorgeirsdóttir hefur gengið til liðs við ráðgjafafyrirtækið RATA sem verkefnastjóri og textasmiður.

Eva Rún Þorgeirsdóttir hefur gengið til liðs við ráðgjafafyrirtækið RATA. Eva Rún er lærður verkefnastjóri með áherslu á frumkvöðlafræði (enterprising leadership) og útskrifaðist frá Kaospilot háskólanum í Árósum í Danmörku, en skólinn er þekktur fyrir áherslu sína á skapandi hugsun og samfélagslega ábyrgð fyrirtækja. Eva Rún er einnig með diplómu í markaðsfræðum frá London City College. 

Eva Rún hefur á undanförnum árum starfað við bæði textagerð og verkefnastjórnun. Hún hefur sent frá sér níu skáldsögur fyrir börn og fengist við fjölbreytta textagerð. Þar má nefna textagerð og framleiðslu á efni fyrir samfélagsmiðla og margskonar markaðsefni sem tengist ímynd fyrirtækja. Hún hefur einnig auðuga reynslu af því að starfa sem framleiðandi við fjölmiðla á Íslandi, m.a. á RÚV,  og sem verkefnastjóri viðburða, t.a.m. við verkefnastjórn viðburða á Menningarnótt. 

Eva Rún er hluti af verkefninu Hugmyndasmiðir sem er verkefni sem eflir frumkvöðlafærni barna og hvetur þau til að skapa lausnir fyrir framtíðina. 

„Ég hlakka til að takast á við ný og margbreytileg verkefni með RATA. Ég veit fátt skemmtilegra en að vinna með fólki á skapandi hátt í fjölbreyttum verkefnum. Verkefnin sem ég hef starfað við síðustu ár tengjast mörg menningu og fræðslu, ásamt allskonar verkefnum í fjölmiðlum. Ég hef einnig fengist verkefni þar sem umhverfismál koma mikið við sögu - en ég hef sérstakan áhuga á öllu sem viðkemur umhverfismálum og þróun þeirra á komandi árum,“ segir Eva Rún. 

„Við erum því einstaklega þakklát fyrir að fá Evu Rún í okkar raðir. Hún er býr yfir einstökum hæfileika til að leiða áfram teymi og verkefni á skapandi máta með blöndu af auðmýkt, staðfestu og þrautseigju. Slíkir eiginleikar eru verðmætir þegar kemur að því að aðstoða fyrirtæki í að rata í átt að eigin árangri. Við bjóðum Evu Rún velkomna í teymið og hlökkum til að blómstra með henni“ segir Hafdís Huld Björnsdóttir, framkvæmdastjóri RATA.

RATA er stofnað af Hafdísi Huld Björnsdóttur og Svövu Björk Ólafsdóttur. RATA sérhæfir sig í vinnustofum, stefnumótun, heilbrigðri vinnustaðamenningu og stuðningi við vistkerfi nýsköpunar.

Previous
Previous

Hverjir eru sigrar ársins?

Next
Next

Ábyrgð og árangur stjórnarmanna